Næring
Matjurtaplöntur þurfa næringarríkan jarðveg. Það er gott að bæta jarðveginn með safnhaugsmold, moltu eða sveppamassa. Einnig er æskilegt að bera þörungamjöl og þurrkaðan hænsnaskít á matjurtabeðin.
Þá er gott að vökva með áburði úr þangi þar sem hann inniheldur öll snefilefni og vaxtarhvata sem plönturnar þarfnast. Þangáburður spornar einnig gegn blaðsvepp, spunamaur og blaðlús.
Fosfór (P) til að auka rótarvöxt og flýta fyrir blómgun.
Kalí (K) til að auka frostþol og mótstöðu gegn þurrki og sveppasjúkdómum. Kalí er einnig nauðsynlegt við ljóstillífun.
Köfnunarefni (N) til að auka blað- og stöngulvöxt.
Snefilefni: Matjurtir þurfa önnur næringarefni í minna mæli. Þau eru bór (B), járn (Fe), klór (Cl), kopar (Cu), kóbolt (Co), magnesíum (Mg), mangan (Mn), mólýbden (Mo), natríum (Na) og zink (Zn).
Skortur á næringu
Ef það skortir næringarefni í jarðveginn kemur það niður á gæði plantnanna. Þær geta einnig fengið áfall ef það kemur kuldatíð eftir að þær eru settar út.
Bórskortur: Belgjurtir, blómkál, gulrófur, gulrætur, kartöflur og næpur eru viðkvæmar fyrir bórskorti. Rófur fá vatnskennda bletti og það koma dökkar rákir í blómkálið. Bórskortur getur leitt af sér óætar matjurtir. Blákorn er gott ráð gegn skorti af þessu tagi.
Fosfórskortur: Blöðin fá á sig rauðbláan lit. Rótarávextir verða litlir.
Kalkskortur: Ung blöð verða gul og visna.
Skortur á Mólýbden: Blöðin krumpast og rúllast upp ásamt því að verða löng og mjó. Þessi skortur er helst í súrum jarðvegi. Það er gott að kalka jarðveg af þessu tagi.
Níturskortur: Plönturnar missa lit og fara að vinda upp á sig. Of mikið nitur veldur því að blöðin verða dökkgræn og lin.
Of mikið af næringarefnum: Matjurtaplöntur eru viðkvæmar fyrir of miklu magni af snefilefnum. Þær þola hinsvegar umframmagn af fosfór, kalí og köfnunarefnum áður en eiturverkanir koma í ljós.