Vistvænar varnir
Sveppagróður:
Úðið moldina með eftirfarandi blöndu um leið og matjurtir eru gróðursettar til að sporna við sveppamyndun. Þessi blanda er sótthreinsandi og breytir vaxtarskilyrðum þannig að örverurnar sem mynda sveppinn ná ekki að þroskast.
2 l. volgt vatn
1 tsk. matarolía
1 tsk. grænsápa eða 1 msk. Sápuspænir
4 tsk. matarsódi
Fyrst er matarsódinn leystur upp í u.þ.b. 1 dl. af vatni til að koma í veg fyrir kögglamyndun. Öðru er blandað saman við og hrært. Gætir þess að það freyði ekki of mikið. Setjið í úðabrúsa og úðið á plöntur og moldaryfirborð eftir þörfum. Þetta er bæði hægt að nota til að fyrirbyggja sveppamyndun og drepa sveppi. Matarsódaupplausn getur einnig gagnast við að eyða myglu og myglugróum í húsum. Blandan geymist í nokkrar vikur, en best er að gera nýja blöndu í hvert sinn sem á þarf að halda.
Blaðsveppur:
Þurrkið klóelftingu, vallelftingu, fjallagrös eða litunarskóf og malið.
Setjið 1-2 dl. af elftingarmjöli út í 1 l. af vatni.
Sjóðið í 20 mín og látið kólna.
Síið elftinguna frá vatninu í gegnum léreftsdúk.
Setjið ögn af sápu við vatnið og setjið í úðabrúsa.
Úðið plönturnar vandlega.
(Upplýsingar úr bókinni Matjurtir, Handhægur leiðarvísir fyrir ræktendur sem Sumarhúsið og garðurinn ehf. gaf út árið 2007)
Sniglar:
Setjið sand eða vikurlag yfir moldina.
Sniglar eru ekki hrifnir af þurru og hrjúfu yfirborðinu.
Skordýr:
Fyllið ryðfrían pott með rabarbarablöðum, regnfangi eða stórnetlu.
Fyllið upp í pottinn með vatni og sjóðið í 20-30 mín. Það er einnig hægt að hella sjóðandi vatni í pottinn.
Látið kólna og standa yfir nótt.
Síið í gegnum léreftstusku og vindið til að ná eins miklu af safanum og þið getið.
Setjið 1 tsk. af grænsápu í hvern lítra.
Blandið þessari lausn saman við vatn í hlutföllunum 1:7.
Úðið yfir plönturnar.
Þessi blanda geymist ekki lengi.
Þá er hægt að blanda olíu úr sítrusávöxtum, ekalyptus, rósmarín, timjan, lavander eða piparmyntu saman við vatn. 5 ml. á móti 1 l. af vatni.
Einnig er hægt að setja fínmalaða eldpapriku (Cayenna pipar) í heitt vatn og sía vatnið. Setjið ögn af matarolíu og sápu saman við. Setjið einn hluta af þessu vatni á móti 10-15 af hreinu vatni og úðið.
Uppskriftirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi frá Hafsteini Hafliðasyni.
Þessar upplýsingar má einnig finna í bókinni
Matjurtir, Handhægur leiðarvísir fyrir ræktendur
sem Sumarhúsið og garðurinn ehf. gaf út árið 2007