Velkomin i Garðyrkjustöð Ingibjargar
Garðyrkjustöð Ingibjargar er í eigu hjónanna Ingibjargar Sigmundsdóttur og Hreins Kristóferssonar. Grunninn að garðyrkjustöðinni lögðu foreldrar Ingibjargar, þau Sigmundur K. Guðmundsson og Kristín Jónsdóttir, en þau reistu 100 fermetra gróðurhús í bakgarðinum hjá sér árið 1953.
Fyrsta gróðurhúsið er næst okkur á myndinni.
Þarna voru sumarblóm og gúrkur.
Gróðurhús númer tvö. Þarna voru ræktaðir tómatar.
Garðyrkjustöð Sigmundar var rekin að Heiðmörk 31 til ársins 1980, en þá keyptu Ingibjörg og Hreinn reksturinn og tóku formlega við í janúar 1981. Um var að ræða tvö gróðurhús, samtals um 320 fermetra, auk svæðis undir vermireiti. Framleiðslan var þá eingöngu sumarblóm og grænmeti.
Ingibjörg og Hreinn byggðu fyrsta gróðurhúsið sitt
á milli gróðurhúsanna sem Sigmundur og Kristín byggðu.
Árið 1985 voru sumarblómin sett í þunga trékassa og allt var handvökvað.
Fljótlega var ráðist í uppbyggingu og endurbætur á stöðinni og árið 1984 keyptu hjónin garðyrkjustöð að Heiðmörk 38. Þar var byggður 150 fermetra söluskáli og sett upp rúmgott sölusvæði fyrir garðplöntusölu. Við kaupin jukust möguleikar á fjölbreytni í framleiðslu. Úrval garðplantna var stóraukið og pottablómaræktun tekin upp. Garðplöntuframleiðslan samanstendur nú af ræktun sumarblóma, trjáa, runna, rósa, fjölærra blóma og matjurta og úrvalið er alltaf að aukast.
Söluskálinn að Heiðmörk 38
Skálinn í byggingu árið 1986. Það var búið að opna áður en það var búið að glerja.
Það hefur ýmislegt breyst síðan 1986.
Hér er til dæmis enginn milligangur á milli
söluskálans og gróðurhússins lengst til hægri á myndinni.
Árið 1991 bættist við reksturinn ein elsta garðyrkjustöð landsins, Grímsstaðir. Þar var um að ræða 1.100 fermetra undir gleri auk stórs útisvæðis undir trjá- og sumarblómaræktun. Síðan bættist við Snæfell, þá Rósakot, Lindarbrekka og Akur.
Garðyrkjustöð Ingibjargar byggði lengi vel á grunni 8 eldri garðyrkjustöðva og er nú samtals 6.000 fermetrar undir gleri, auk 4.000 fermetra í plasthúsum, ræktunarsvæðis með vermireitum og sölusvæði. Breytingar hafa þó orðið hin síðari ár þar sem búið er að selja tvær stöðvar og Lindarbrekka brann árið 2010. Í staðinn voru gróðurhús í Fagrahvammi tekin á leigu.
Sölusvæðið að Heiðmörk 38 árið 2001
Sölusvæðið árið 2010
Til að byrja með voru stöðugildin í Garðyrkjustöðinni um 1 1/2 ársverk. Nú starfa um 10 manns í fullu starfi allt árið í garðyrkjustöðinni og annað eins bætist við yfir sumarvertíðina. Þar sem hluti garðplönturæktunar er árstíðarbundinn er breytt um framleiðslutegund um mitt ár. Frá janúar til júlí eru ræktuð sumarblóm, en frá júlí til desember eru húsin nýtt undir græðlingatöku og jólastjörnuræktun. Þá eru laukblóm s.s. túlípanar, páskaliljur og hýasintur einnig þáttur í framleiðslunni. Afurðir garðyrkjustöðvarinnar eru seldar í smásölu að Heiðmörk 38 og í heildsölu vítt og breitt um landið.
Fyrsta priklunin fyrir sumarið á sér stað í lok febrúar.
Ákveðnum tegundum er priklað með vélum,
en mörgum tegundum er enn handpriklað.
Þessi bíll hefur vakið mikla lukku innan og utan fyrirtækisins.
Hann er skreyttur í tilefni af bæjarhátíðunum "Blóm í bæ" og "Blómstrandi dagar".
Inga Lóa og Ari voru mestu mátar...
þar til "hann" verpti eggi. Þá fékk fuglinn nafnið Árelía.
Árelía elskar sumarið því þá hittir hún svo mikið af fólki.
Hjónin Hreinn og Ingibjörg á góðri stund.